Hversu tilfinningalega hraust/ur ertu? Tilfinningagreind (Emotional Intelligence) er ekki fasti sem við fæðumst með heldur greind sem við þróum alla ævi. Rannsóknir í jákvæðri sálfræði sýna að jákvæð orka og stjórn á tilfinningum leiða til aukinnar framleiðni, betra minnis, betri vinnuanda, snjallari ákvarðanatöku og betri teymisvinnu. Þróun okkar á eigin tilfinningagreind hefur áhrif á hugarfar okkar, á frammistöðu okkar og þrautseigju. Það má því með sanni segja að tilfinningagreind sé einn mikilvægasti áhrifavaldurinn í velgengni okkar í starfi og leik í síbreytilegu samfélagi. Kjarninn í tilfinningagreind er að skilja sambandið á milli hugsana, tilfinninga og hegðunar. Hún snýst um það að við séum meðvituð um tilfinningar okkar, skiljum þær og stjórnum þeim. Viðhorfsstjórnunin hefur því áhrif á hvernig við stjórnum tilfinningum okkar t.d. þegar á móti blæs eða í krefjandi aðstæðum. Þekkjum við heitu takkana okkar þ.e. það sem kemur okkur í uppnám? Lærum að bæta tilfinningalegt hreysti okkar og tökum stjórn í slíkum aðstæðum í stað þess að leyfa aðstæðum eða fólki að taka stjórn á okkur. ​

Fyrir hverja: Stjórnendur og liðsheildir