Hvað er sjálfstraust eiginlega? Þegar okkur líður vel og okkur finnst við ráða við aðstæður og við jafnvel finnum til okkar þá er sjálfstraustið að verki. Þá erum við líklega inni í okkar góða þægindahring. Það er gott og vel og við erum þá væntanlega að nýta vel hæfni okkar og styrkleika. Það veitir okkur vellíðan en ef við stoppum bara þar þá stöðnum við. Það er því ákaflega mikilvægt að skilja afhverju við upplifum sjálfstraust og skilja hvað í okkar fari er að blómstra – nýta það síðan til að fara inn á svið þar sem við erum ekki ennþá jafn öflug og jafnvel óörugg á. Því fylgir óvissa og við þurfum kjark og þor og sjálfstraustið sem við höfum fundið, þar sem við erum örugg, það er drifkrafturinn til að þora að vaxa. Smátt og smátt, ef við þróum okkur með þessum hætti, stækkar þægindahringurinn og það umhverfi þar sem við finnum fyrir sjálfstrausti. Í raun verða margfeldisáhrif og óttinn við óvissuna minnkar því sjálfstraust okkar þróast í kjark og þörf til að halda áfram að vaxa, því tilfinningin er svo nærandi.
Fyrir hverja: Stjórnendur og liðsheildir