Margir stjórnendur telja sér trú um að þau séu betri og fljótari að gera hlutina sjálf en að fá starfsfólkið til að gera þá, þau gætu mögulega gert hlutina öðruvísi eða hugsanlega gert mistök. Slík hugsun býr til hættu á sóun. Sóun á tíma stjórnenda og starfsmanna, sóun á auðlindum ásamt vannýtingu á hæfileikum og mögulegri stöðnun. Valdefling og yfirfærsla ábyrgðar er skilyrðislaus krafa til þeirra sem stjórna í dag. Ávinningurinn er margþættur svo sem; tímasparnaður, þróun, nýsköpun, minnkun streitu, helgun starfsfólks og vöxtur ásamt aukinni starfsánægju. Í nútíma samfélagi þar sem unga fólkið er drifið áfram af áskorunum og það verður leitt ef ekkert spennandi og örvandi er í gangi, þá mun reyna verulega á að veita því áskoranir við hæfi. Á sama tíma erum við mögulega að koma í veg fyrir eigin kulnun í starfi þar sem álagið verður allt of mikið ef við sem leiðtogar ætlum að vera með alla hattana. Aðferðin við að valdefla og yfirfæra ábyrgð skiptir því sköpum og henni fylgir mikil ábyrgð. Óhætt er að segja að marga skorti þjálfun á þessu mikilvæga sviði og því brýnt að fara vel í áhrifaríkar aðferðir við að fela öðrum vald og ábyrgð.
Fyrir hverja: Stjórnendur