Leystu úr læðingi þitt sanna sjálf

Erum við að nýta hæfileika okkar til fulls í vinnunni? Erum við að ná að starfa óttalaust? Höfum við nægilegt hugrekki til að koma fram með nýjar hugmyndir? Erum við að njóta okkar nægilega vel til að geta verið við sjálf í lífi og starfi? Erum við að ná að láta ljós okkar skína?

Í þessum fyrirlestri fara Ragnheiður og Þorsteinn yfir hversu mikilvægt það er manneskjunni að geta verið hún sjálf og starfað óttalaust og með öðrum. Að geta starfað í trausti þess að vera ekki refsað fyrir að ræða hugmyndir og jafnvel mistök. Að þora að skapa út frá eigin hugmyndaauðgi.

Sköpunarkrafturinn er mikilvægasta aflið í veröldinni. Hann er frumafl vaxtar og þroska; nýsköpunar, frumsköpunar og endurnýjunar. Flest höfum við þó lært að óttast hann eða skammast okkar fyrir hann. En við höfum val. Við höfum ávallt val um að skapa út frá ótta eða trausti. Óttinn við að vera ekki nóg, að vera dæmd, mistakast eða vera refsað getur verið hressandi upp að vissu marki en til lengri tíma litið hefur hann lamandi áhrif á okkur og leiðir til vanlíðunar og minni afkasta. Það er okkur öllum lífnauðsyn að finna gleðina í það skapa. Það veitir okkur orku og eykur afsköstin.

Sköpunarkrafturinn og leikgleðin býr innra með okkur öllum. Þetta er í raun takmarkalaus og óþrjótandi brunnur þegar við lærum að opna fyrir hann. Um leið og við leysum úr læðingi persónulega einstaklingsbundna hæfileika leysum við úr læðingi okkar sanna sjálf. Þegar við lærum að frelsast undan oki eigin ótta gefum við öðrum óafvitandi leyfi til að gera slíkt þið sama.

Hver væri ávinningurinn af því, ef öll á þínum vinnustað nýttu hæfileika sína bara 1% meira eða betur?

Þorsteinn Bachmann er landsþekktur leikari og margverðlaunaður fyrir list sína. Hann hefur fjölbreytta reynslu tengda leiklistinni sem leikari, leikhússtjóri, leiklistarkennari og kvikmyndaframleiðandi svo eitthvað sé nefnt. Einnig hefur Þorsteinn stundað og kennt hláturjóga. Ragnheiður Aradóttir, er sérfræðingur í eflingu mannauðs og hagnýtingu jákvæðrar sálfræði. Hún er eigandi þjálfunarfyrirtækisins PROtraining&coaching sem býður upp á markþjálfun, námskeið, vinnustofur, ráðgjöf og fyrirlestra. Hún hefur um 20 ára reynslu af þjálfun og námskeiðahaldi fyrir fjölda fyrirtækja hérlendis og stórfyrirtæki erlendis. Hún hefur unnið til fjölda verðlauna sem þjálfari á alþjóðavettvangi. Hún er PCC vottaður stjórnenda- og teymismarkþjálfi. Ásamt Jóni Þórðarsyni rekur hún jafnframt viðburðafyrirtækið PROevents og saman búa þau til öfluga viðburði fyrir atvinnulífið.

Erindið er einnig hægt að bóka í formi vinnustofu þar sem kafað er dýpra í efnistökin.