Stríð og kliður: Hvað verður um ímyndunaraflið? – ásamt fleiri fyrirlestrum

Stríð og kliður: Hvað verður um ímyndunaraflið?

Stríð og kliður er leiftrandi hugmyndaríkur og ögrandi fyrirlestur sem talar til fólks á öllum aldri – og fjallar um náttúru, tækni og ímyndunarafl og tengslin þar á milli.

Sverrir Norland sækir jöfnum höndum í eigið líf og skrif vísindamanna og skálda í aldanna rás og útkoman er frumleg og hrífandi glíma við margar stærstu spurningar samtímans.

Þurfum við að endurhugsa samfélög okkar frá grunni? Eru það hinir gæfustu sem lifa af? Er heimurinn virkilega að farast? Búum við í tækniræði? Hvað verður um óhemjurnar?

Fyrirlesturinn byggist á samnefndri bók Sverris sem kom út árið 2021 við afar góðar undirtektir. Þar veltir höfundurinn fyrir sér loftslagsmálunum, yfirtöku tækninnar á hversdagslífi okkar – og ekki síst þeim miklu áhrifum sem þetta tvennt hefur núorðið á sálarlíf okkar, hugsun og sköpunargleði.

Fyrirlestur sem Sverrir hefur flutt víða, við ótal tilefni og í ólíkum myndum.

Lengd: umsemjanlegt. Viðmið: 30-40 mín

***

Hinn fullkomni karlmaður

Hinn fullkomni karlmaður er stórskemmtilegur, hugvíkkandi – og fyndinn – fyrirlestur sem fjallar um karlmennsku í samtímanum á víðan og fjölbreyttan hátt og einblínir á „jákvæða karlmennsku“.

Hvernig eigum við að hugsa um karlmennskuna, bæta hana og efla og vera með karlmönnum í liði? Hvernig líta fyrirmyndir ungra karlmanna út í dag ef þær eru þá yfirhöfuð til?

Sverrir leitar víða fanga, meðal annars í eigið líf, og ferðast með áheyrendum inn á heimilið, á vinnustaði, aftur í aldir og inn í framtíðina.

Lengd: umsemjanlegt. Viðmið: 40 mín.

***

Hinir gæfustu lifa af: Um hatursorðræðu, slaufun, ást, forvitni og listir

Sverrir fjallar á léttan og aðgengilegan hátt um flókið og margslungið málefni: síaukna skautun í bæði íslensku samfélagi og almennt á Vesturlöndum og sömuleiðis vaxandi hatursorðræðu, einkum á netinu.

Hvað er það sem ýtir undir þessa þróun? Eru það breytingar í samfélaginu, tækniþróun eða bara skítlegt eðli okkar mannanna? Erum við dæmd til að halda áfram að rífast og tortryggja hvert annað eða getum við ýtt undir skilning og samkennd og horft björtum augum til framtíðar?

Lengd: umsemjanlegt. Viðmið: 30 mín.

***

Að ná að skrifa og njóta þess líka að lifa: Hvernig nýta má „Lögmálið um lágmarksfyrirhöfn“ til að vera meira skapandi

Mýtan um þjáða listamanninn er lífseig – um snillinginn sem þarf helst að svelta, engjast um í ástarsorg, gleyma að skila inn skattaskýrslu og búa í leku húsnæði með myglu í veggjunum til að ná að skapa eitthvað af viti. En hvað ef þetta er bara bull? Er ekki miklu betra að njóta lífsins, búa til listaverk saddur og sæll og helst í húsnæði sem lekur ekki?

Í fyrirlestrinum „Að ná að skrifa og njóta þess líka að lifa“ veitir rithöfundurinn og fjölmiðlamaðurinn Sverrir Norland ýmis hvetjandi ráð sem hjálpa upprennandi höfundum – sem og öðrum þeim sem vilja skrifa eða vera skapandi á annan hátt – að vinna úr hugmyndum sínum, leggja ekki árar í bát og þróa aðferðir til að halda dampi á ritvellinum. Áhersla er lögð á að hafa ánægju af því að vera til, skerpa athyglisgáfuna og beita „lögmálinu um lágmarksfyrirhöfn“ til að hámarka sköpunargleði sína og afköst. Með öðrum orðum: Hafa gaman af því að skrifa og vera skapandi. Þá kemur hitt af sjálfu sér.

Einkum er lögð áhersla á að fjalla í verkum sínum um það sem við a) dásömum, b) fyrirlítum, þ.e. á mikilvægi þess að hafa sterkar skoðanir á viðfangsefninu hverju sinni. Sverrir fer enn fremur yfir ýmsar aðferðir sem hann hefur þróað sjálfur í eigin ritstörfum og annarri skapandi vinnu (mikilvægi þess að læra á eigið ímyndunarafl; sagnalist sem væntingasköpun; mikilvægi þess að spegla og bergmála í frásögn og annarri list; hvernig nota má „töfraduft“ til að glæða verk auknu lífi; og svo framvegis).

Léttur og lifandi fyrirlestur sem kveikir á peru í kollinum og skilur við áhorfendur fulla af skapandi orku.

Lengd: Stutta útgáfan, 15-20 mín; lengri útgáfan, 30-40 mín.

***

Sverrir Norland starfar sem sérfræðingur í samskiptum hjá Arion banka. Hann er einnig rithöfundur, útgefandi, hugmyndasmiður og fjölmiðlamaður og hefur á síðustu árum flutt mörg hundruð fyrirlestra í skólum, fyrirtækjum og stofnunum, bæði út frá bókum sínum og eins um önnur efni spanna allt frá karlmennsku í samtímanum, loftslagsbreytingum, tækni, sköpunargáfu, hatursorðræðu og gervigreind.

Sverrir hefur gefið út tólf bækur, þ.m. talið lofuð verk á borð við Klettinn (2023) og Stríð og klið (2021). Þá hefur hann rekið bókaútgáfuna AM forlag og þýtt á annan tug barnabóka, til að mynda Þar sem óhemjurnar eru eftir Maurice Sendak og Eldhuga eftir Pénélope Bagieu, auk leikritsins Bara smástund! eftir franska leikskáldið Florian Zeller, fyrir Borgarleikhúsið.

Sverrir hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir bókmenntastörf sín, m.a. barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar, íslensku bóksalaverðlaunin og hina evrópsku Emerging Writer on Tour-viðurkenningu. Þá hefur hann verið mjög áberandi í því að berjast fyrir réttindum rithöfunda og hinna skapandi stétta og hlúa að áhuga almennings á bókmenntum, meðal annars sem bókmenntagagnrýnandi í Kiljunni og í gegnum setu sína í stjórn Rithöfundasamband Íslands.

Þá hefur Sverrir gefið út talsvert af tónlist við eigin texta, nú síðast breiðskífurnar Hinir gæfustu lifa af (2025) og Mér líður best illa (2024).

Sverrir hefur enn fremur fengist við handritagerð fyrir sjónvarp og haldið úti útvarpsþáttum og hlaðvarpi á borð við Upp á nýtt (Rás 1) og Bókahúsið (Hlaðvarp Forlagsins), auk þess að vinna sem hugmynda- og textasmiður fyrir auglýsingastofur og fjöldamörg fyrirtæki.

Sverrir er með mastersgráðu í skapandi skrifum frá Middlesex University í London og BA-gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands. Hann er stundakennari við Háskóla Íslands, í ritlist og hagnýtri menningarmiðlun, og fjallar þar meðal annars um gervigreind, stafræna miðlun og menningarlandslag samtímans.

Ljósmyndari: David Konecny