Hvort viltu vera gleðigjafi eða fýlupúki?
Í erindinu segir Ragnhildur frá því hvernig hún breyttist úr annáluðum gleðigjafa í fýlupúka – og frá leiðinni til baka. Það að breyta viðhorfi sínu frá fýlupúka til gleðigjafa er eitthvað sem margir tengja við, og þegar rannsóknir í jákvæðri sálfræði eru settar fram á léttan og aðgengilegan hátt, þá er líklegt að fólk muni ekki aðeins njóta erindisins heldur einnig fá verkfæri til að bæta eigin lífsgæði.
Rætt er um ábyrgð á eigin viðhorfum og tilfinningum. Í námi sínu í jákvæðri sálfræði fékk Ragnhildur ýmis tól og tæki sem gagnast henni í baráttunni við neikvæðnina og hún kynnir nokkur þeirra til leiks. Vitnað er í rannsóknir um það sem einkennir hamingjusama einstaklinga og hvers vegna við ættum að leitast við að vera ánægð með okkur sjálf og lífið. Rætt er um lært hjálparleysi, áfallaþroska, tilfinningalæsi og fleira sem einkennir hamingjusama einstaklinga. Erindið hefur verið flutt við góðar undirtektir á fjölda vinnustaða. Sumir segja þetta skemmtilegasta námskeið sem þeir hafa farið á, aðrir að þeir hafi verið á uppistandi í klukkutíma.
Ragnhildur er með MA í sögu og safnfræðum frá New York University, kennsluréttindi frá Háskóla Íslands, diplóma í starfsmannastjórnun (EHÍ) og var í fyrsta hópnum sem lærði markþjálfun hér á landi. Hún er með PCC vottun frá International Coaching Federation og er vottaður teymismarkþjálfi frá Team Coaching International. Ragnhildur er með diplómu í jákvæðri sálfræði frá EHÍ, Certified Dare to LeadTM Facilitator, Certified Daring WayTM Facilitator og Certified Designing Your Life Coach. Ragnhildur er með réttindi til að leggja fyrir Strengths Profile styrkleikagreiningu fyrir einstaklinga og teymi og er Five Behaviors of a Cohesive TeamTM Facilitator og er því þjálfuð í að nýta efni frá Lencioni til að byggja upp teymi. Hún er einnig Everything DiSC Facilitator.
Ragnhildur nýtur þess að læra og miðla. Hún hefur haldið fjölda vinnustofa og námskeiða bæði
hér og erlendis og finnst fátt skemmtilegra en að halda erindi. Ragnhildur hefur verið virk í
ýmsum félögum (Félag íslenskra safnmanna, sænsk-íslenska félagið, FKA) en mest þó í
Göngum saman þar sem hún hefur verið í fjáröflunarnefnd frá stofnun félagsins 2007.