Saga að segja frá

Síðustu tuttugu ár hefur Gísli gert fátt annað en að segja sögur, hann segir sögur í sjónvarpi, á árshátíðum og hverskonar skemmtunum og ekki síður á ferðalögum sem leiðsögumaður. Gísli hefur einnig fjallað um það að segja sögu og gildi hennar að fornu og nýju. Málið er að það að segja sögu hefur aldrei dottið úr tísku síðustu árþúsundir. Við segjum sögur með mismunandi aðferðum og í mismunandi tilgangi, að mati Gísla er þetta mikilvægasta tjáningarform mannsins.

Við segjum sögur með því að mæla þær af munni fram, við syngjum þær, við segjum þær með teikningum, með kvikmyndum osfrv. Sögur eru ekki bara afþreying, þær eru notaðar sem stjórntæki, til að hafa áhrif á fólk og í seinni tíð er farið að þjálfa fólk sérstaklega upp í sagnamennsku til að nýta í markaðssetningu svo dæmi sé tekið.

Gísli hefur byggt sinn fyrirlestur upp þannig að hann fer yfir sögu sögunnar, hvernig sögur hafa verið notaðar í ýmsum tilgangi, ræðir um hvernig á að segja sögur og kryddar þetta með sögum, sönnum og lognum.