Að hugsa út fyrir boxið / Hvert er lestin að fara?

Að hugsa út fyrir boxið

Það er algengt að fólk þjálfi sig í starfi eða áhugamálum sínum, endurmennti sig á sínu starfssviði, fari til dæmis á golf námskeið eða kaupir nýja uppskriftabók, en fæstir þjálfa sig í að hugsa betur.

Sköpunargleði er hugsanamynstur sem við getum þjálfað og hún er sá færniþáttur sem Alþjóða efnahagsráð telur að muni vaxa hraðast í mikilvægi á næstu árum.

Birna Dröfn mun fara yfir hvernig við getum þjálfað sköpunargleðina og hvernig gervigreind getur gert okkur enn meira skapandi.

***

Hvert er lestin að fara?

Þau fyrirtæki sem einbeita sér að sköpunargleði geta vaxið allt að 160% hraðar en þau sem gera það ekki og það getur aukið ánægju starfsfólks og viðskiptavina samkvæmt ýmsum rannsóknum.

Á vinnustofunni verður farið yfir mikilvægi sköpunargleðinnar og fjóra megin þætti sem þarf að hafa í huga til þess að skapa skýra sýn stjórnendateymisins hvað sköpunargleði og nýsköpun varðar.

Velja hvert lestin á að fara. Skapa sköpunargleðistefnu. Farið er yfir hvernig nýsköpun fyrirtækið leitast eftir og hverjir eru núverandi styrkleikar fyrirtækisins.

Byggja lestarteinana. Búa til ferla fyrir sköpunargleðina. Farið er yfir hvernig hugmyndir eiga að flæða innan fyrirtækisins, hvernig velja á hugmyndir, hvernig útdeila eigi auðlindum fyrir tilraunir og hvert hlutverk stjórnendateymisins er.

Byggja lestina. Tryggja umhverfi sem styður við sköpunargleðina. Leiðtogar hafa gífurleg áhrif hér og farið er yfir hvað þau geta gert til þess að styðja við og efla sköpunargleðina.

Setja eldsneyti á lestina. Efla skapandi hugsun með þjálfun. Farið er yfir hvernig við getum þjálfað sköpunargleðina okkar með rannsökuðum æfingum og gervigreind.

***

Um fyrirlesara:

Birna Dröfn Birgisdóttir er sköpunargleðifræðingur og stofnandi Bulby sem er sköpunargleðihugbúnaður. Hún hefur rannsakað hvernig efla má sköpunargleði á meðal starfsmanna í doktorsnámi sínu við Háskólann í Reykjavík og hefur þjálfað hundruðir einstaklinga og fyrirtæki í sköpunargleði. Birna Dröfn er viðskiptafræðingur með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum frá Griffith University í Ástralíu. Einnig er hún stjórnendamarkþjálfi, hefur lært NLP (Neuro-linguistic programming) og mannauðsstjórnun og hefur meðal annars starfað við stjórnun og kennslu. Hún veit fátt betra en að vera úti í náttúrunni og því þykir henni einstaklega skemmtilegt að rannsóknir benda einmitt á það að náttúran getur ýtt undir sköpunargleðina okkar 🙂