Hljóðheilun

Áshildur er fjögurra barna móðir, menntaður kennari og ACC markþjálfi með diplómagráðu í jákvæðri sálfræði. Hún vinnur einnig með gong, kristalshörpu og fleiri hljóðfæri til að hjálpa fólki að ná dýpri tengingu við sjálfið.

Hvað gerir gongið?

Gongið virkar einstaklega vel til þess að þjálfa okkur í að hlusta á okkar innri rödd. Það þjálfar okkur í því að treysta, njóta, gefa eftir og stundum fara út að ákveðnum þolmörkum. Það hefur afar styrkjandi áhrif á taugakerfið í okkur og er í eðli sínu frekar „speisað“, en það er samt sem áður eitt af elstu hljóðfærum mannkyns og er tónn þess oft nefndur hljóð sköpunar alheimsins. Gongið getur kallað fram allskonar upplifanir, algjöra kyrrð hugans, sýnir, tilfinningar, líkamleg viðbrögð og margt fleira. Engin upplifun er rétt eða röng, það sem við þurfum á að halda kemur til okkar. Hljóðbylgjurnar hafa áhrif á vatnsbúskap líkamans, líkt og þegar steinn gárar vatn. Það beinir okkur í meiri samhljóm innra með okkur, en tíma í hljóðheilun má líkja við það að fínstilla sinfóníuhljómsveit.

Hvernig fer þetta fram?

Fólk ýmist kemur sér vel fyrir á dýnu á gólfinu eða situr á góðum stól, lokar augunum og beinir athyglinni að andardrættinum. Hljóðheilunin tekur um 20-30 mínútur eftir aðstæðum hverju sinni og við komum svo rólega tilbaka þannig að hver og einn lendi vel í sjálfum sér áður en haldið er áfram út í daginn. Ef áhugi er fyrir hendi er bæði skemmtilegt og gagnlegt að leyfa þeim sem vilja að deila með hópnum bæði ásetning og upplifun, en það er vissulega valkvætt hverju sinni þar sem allt er unnið út frá persónulegum forsendum.