Hljóðheilun

Áshildur hefur brennandi áhuga á því að sjá fólk vaxa og uppgötva nýjar víddir innra með sér. Hún vinnur með gong, kristalshörpu og fleiri hljóðfæri í þeim tilgangi að koma ró á hugann, víkka vitundina og ná dýpri tengingu við sjálfið.

Hvað gerir gongið?

Gongið virkar einstaklega vel til þess að þjálfa okkur í að hlusta á okkar innri rödd. Það þjálfar okkur í því að treysta, njóta, gefa eftir og stundum fara út að ákveðnum þolmörkum. Það hefur afar styrkjandi áhrif á taugakerfið í okkur. Gongið er eitt af elstu hljóðfærum mannkyns og er tónn þess oft nefndur hljóð sköpunar alheimsins. Hljóðbylgjur gongsins geta kallað fram allskonar upplifanir, algjöra kyrrð hugans, sýnir, tilfinningar, líkamleg viðbrögð og margt fleira. Engin upplifun er rétt eða röng, það sem við þurfum á að halda virðist koma til okkar. Hljóðbylgjurnar hafa áhrif á vatnsbúskap líkamans, líkt og þegar steinn gárar vatn. Þær beina orkusviðum líkamans í meiri samhljóm, en tíma í hljóðheilun má líkja við það að fínstilla heila sinfóníuhljómsveit.

Hvert er markmiðið?

Mikilvægt er að hver og einn setji sér persónulegan ásetning í byrjun tíma, hvort sem hann er nákvæmlega skilgreindur eða ekki. Ásetningur getur einnig verið sá að opna betur gáttir hjartans, skína innra ljósinu skærar eða einfaldlega taka við því sem koma vill hverju sinni. Markmið hvers tíma er að færa þátttakendur nær eigin sannleika, að opna enn betur á tæra uppsprettu visku, innsæis, kærleika og valds frá sálarmiðju einstaklingsins.

Það krefst hugrekkis að horfast í augu við sársauka, mistök, sorg og reiði. Það krefst samt enn meira hugrekkis að horfast í augu við alla þá raunverulegu fegurð, kærleika, ljós og styrk sem býr innra með okkur öllum. Þar sem hið sanna vald okkar býr. Þangað stefnum við.

Hvernig fer þetta fram?

Fólk ýmist kemur sér vel fyrir á dýnu á gólfinu eða situr á góðum stól, lokar augunum og beinir athyglinni að andardrættinum. Hljóðheilunin tekur um 20-30 mínútur eftir aðstæðum hverju sinni og við komum svo rólega tilbaka þannig að hver og einn lendi vel í sjálfum sér áður en haldið er áfram út í daginn. Ef áhugi er fyrir hendi er bæði skemmtilegt og gagnlegt að leyfa þeim sem vilja að deila með hópnum bæði ásetningi og upplifun, en það er vissulega valkvætt hverju sinni þar sem allt er unnið út frá persónulegum forsendum.

Áshildur er gift, fjögurra barna móðir, menntaður kennari og ACC markþjálfi með diplómagráðu í jákvæðri sálfræði. Hún hefur starfað sjálfstætt sem markþjálfi undanfarin ár ásamt því að ferðast með gongin til að spila á viðburðum tengdum sjálfseflingu í Frakklandi, Danmörku og Bretlandi, á Ítalíu og Spáni.