Er starfið mitt að breytast?

Hvernig er starfið mitt að þróast eða breytast og af hverju? Hvaða tækifæri hef ég í þessari þróun og hvað þarf ég að gera til að taka þátt?

Hröð tækniþróun og kröfur neytenda skapa tækifæri annars vegar og búa til pressu hins vegar á því hvernig við vinnum, hvernig við eigum í samskiptum og hvaða kröfur við gerum til vöru og þjónustu. Þetta setur pressu á vinnustaði um að aðlaga sig nýjum veruleika til þess að lifa af og koma í veg fyrir stöðnun. Til þess að vinnustaðir geti fangað þennan veruleika þá þurfa starfsmenn og stjórnendur að sjá tækifærin og tilganginn í því að taka þátt og fyrirtækin að skapa umhverfi sem styður við framtíðar vegferðina.

Markmiðið við lok fyrirlestursinns er að þátttakendur:
• Skilji hvaða kraftar eru að verki sem hafa áhrif á þróun starfa
• Hvaða eiginleikar verða eftirsóttir á vinnustöðum framtíðarinnar
• Hvernig starfsmenn geta haft áhrif á þróun starfa á eigin vinnustað

Fyrirlesturinn hentar bæði starfsmönnum og stjórnendum og á að virka sem hvatning til að taka jákvætt á móti tæknilegum breytingum sem hafa áhrif á störf innan fyrirtækja.

Efni fyrirlestursins byggir á gögnum og reynslu fyrirlesara, gögnum frá Gobal forum um „future of jobs“, skýrslum Deloitte og KPMG um stjórnun og mannauðsmál í bland við fræðileg gögn.

Elín Gränz er markþjálfi og mannauðsstjóri hjá Hörpu, tónlistar og ráðstefnuhúsi. Þar áður starfaði hún lengst af sem framkvæmdastjóri mannauðs og innri þjónustu hjá Opnum kerfum en var jafnframt ráðgjafi, verkefnastjóri og gæðastjóri hjá sama félagi. Elín var einn af stofnendum Vertonets, félags kvenna í upplýsingatækni og var virk í félagsstarfi hjá SKÝ. Elín lauk Meistaranámi frá HÍ í mannuðsstjórnun árið 2011, MBA frá CBS í Kaupmannahöfn 2006 og viðskiptafræði með áherslu á alþjóða markaðsfræði frá HR 2001. Elín útskrifaðist sem stjórnendamarkþjálfi frá Opna háskólanum og Coach University vorið 2018 .